Mjög afgerandi vísbendingar eru um að eldislax hafi verið að veiðast í ám við Arnarfjörð á undanförnum dögum. Hvorki Arnarlax né Arctic Fish, sem eru með sjókvíaeldi í firðinum, hafa þó tilkynnt um að hafa misst fisk. Matvælastofnun hefur birt á vef sínum frétt þar sem segir að 26 ágúst hafi stofnuninni borist tilkynning um fisk sem veiddist á Vestfjörðum sem grunur leikur á að sé eldislax.

Þetta kemur ekkert á óvart. Annars vegar rifna netin í sjókvíunum reglulega án þess að fyrirtækin átti sig á því, og hins vegar lekur smár fiskur jafnt og þétt úr kvíunum án þess að verði stór sleppislys. Sá leki er einmitt skaðlegastur fyrir villta laxastofna.

Þegar eldislax sleppur snemma úr sjókvíunum blandar hann sér oftar en ekki í hóp villtra laxa og fer með þeim á fæðuslóð í hafinu. Þegar hann snýr svo aftur og gengur í ár er ekki hægt að greina hann útlitslega frá villtum laxi. Þessi fiskur skilar sér því aldrei í greiningu til Fiskistofu, sem tekur á móti laxi þegar leikur grunur á að hann komi úr sjókvíaeldi. Þessi fiskur ber þó með sér erfðagerð húsdýrsins sem er stórskaðleg villtum stofnum.