Einn forráðamanna Arctic Fish lét hafa eftir sér í tengslum við þetta nýjasta áfall fyrir sjókvíaeldisiðnaðinn að það ætti „ekki að geta gerst“ að fiskur sleppi úr netapokunum.

Þau orð kjarna afneitun fulltrúa sjókvíaeldisfyrirtækjanna gagnvart þeim skaða sem starfsemin veldur á lífríkinu. Auðvitað veit talsmaður Arctic Fish vel að sleppingar eldislax úr sjókvíum er óhjákvæmilegur hluti þessa iðnaðar. Það ber merki um sérstaka forherðingu að halda öðru fram.

Í frétt Vísis segir m.a.:

„Fjórir eldislaxar veiddust í net Arctic Fish sem fyrir­tækið lagði undir eftir­liti Fiski­stofu ná­lægt ósi Ósár í Pat­reks­firði og í ánni sjálfri síðast­liðinn mið­viku­dag. Matvælastofnun rannsakar hversu margir fiskar hafa sloppið.

Tvö göt komu í ljós á kví númer átta hjá Arctic Fish í Kvígindis­dal í Pat­reks­firði síðasta sunnu­dag. Greindi fyrir­tækið sjálft frá því í til­kynningu en í kvínni eru 72.522 fiskar. Voru götin hvort um sig 20×30 sentí­metrar.

Vísir leitaði við­bragða hjá Fiski­stofu vegna málsins. Í kjöl­farið birti stofnunin til­kynningu á vef sínum. Þar segir að engir fiskar hafi veiðst í net sem Arctic Fish hafi lagt við sjó­kvína.

Segir í til­kynningunni að í fram­haldi hafi verið við­haft eftir­lit meðal annars með dróna og sást til fiska í Ósá í Pat­reks­firði þriðju­daginn 22. ágúst. Fiski­stofa gerði við­komandi land­eig­endum við­vart og mælti fyrir um að Arctic Fish skyldi leggja net í sjó ná­lægt ósi Ósár, 23. ágúst, og einnig voru net lögð í Ósá. Var það gert og var eftir­lits­maður Fiski­stofu með við lagningu neta. …

Þá segir í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin hafi strax hafið rannsókn á málinu. Sú rannsókn standi yfir.

Segir að rannsókn stofnunarinnar miði að því að finna út ástæðu fyrir götunum, fjölda fiska sem hafi strokið og einnig að kanna hvort innri gæðaferlum fyrirtækisins hafi verið fylgt í hvívetna.“