Í ljósi frétta af þeim fjölda sleppifiska úr sjókvíaeldi sem hafa fundist í ám á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarnar vikur er tilefni til þess að rifja upp mikla útbreiðslu villtra laxfiskastofna (lax, urriða og bleikju) í vatnsföllum á þessu svæði. Þessir náttúrulegu stofnar hafa nú þegar skaðast af völdum sjókvíaeldisins. Við þökkum dyggum lesanda þessarar síðu, Birni Davíðssyni, fyrir að minna okkur á rannsóknina sem sýnir þessa miklu útbreiðslu.

Rannsóknin heitir „Útbreiðsla og þéttleiki seiða laxfiska á Vestfjörðum, frá Súgandafirði til Tálknafjarðar“ og var gerð árið 2017 af vísindafólki Hafrannsóknastofnunar.

Í rannsókninni kemur fram að náttúrulegir laxfiskar fundust í öllum sextán vatnsföllum sem könnuð voru frá Súgandafirði til Tálknafjarðar. Villtur lax fannst í ellefu ám og var þar af ríkjandi tegund í tíu vatnsföllum. Urriði fannst í tíu ám. Hann var næst algengasta tegundin, „bæði hvað útbreiðslu og seiðaþéttleika snertir,“ einsog segir í rannsókninni. Bleikja fannst svo í sex vatnsföllum.

Þessar villtu tegundir í dýraríki Íslands hafa nú þegar skaðast af völdum sjókvíaeldis, vegna erfðablöndunarinnar og sníkjudýranna sem streyma úr sjókvíunum.

Enn eru eftirlitsstofnanir landsins þó að heimila vöxt þessa skaðlega iðnaðar á svæðinu, ótrúlegt en satt.