Fiskeldislektor á Hólum hefur fengið pláss í fjölmiðlum með boðskap sem gæti hafa verið skrifaður inn á skrifstofu Landssambands sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Hann er auðvitað óbeint í vinnu við þennan iðnað.

Við höfum þegar bent á afgerandi orð norskra óháðra vísindamanna um að sjókvíaeldi sé “stærsta manngerða ógn” villtra laxastofna.

Við viljum líka benda á efni frá hlutlausu innlendu fræðifólki. Til dæmis það merkilega rit “Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins”. Þar er meðal annars er fróðlegur kafli um ferskvatnsfiska:

„Laxeldi í sjókvíum er álitið ógn við villta stofna laxa og laxfiska. Helstu áhrifin eru talin vera vegna mögnunar og útbreiðslu sjúkdóma og laxalúsar og erfðablöndunar við villta stofna.

Á Íslandi er notaður eldisstofn af framandi uppruna (norskur) í sjókvíaeldi. Vegna þeirrar áhættu sem því fylgir hefur erfðanefnd landbúnaðarins lagst gegn notkun hans.

Í Noregi má aðeins ala eldislax af innlendum uppruna í sjókvíum en þó eru strokulaxar úr eldi taldir helsta ógn við villta stofna þar í landi, einkum vegna erfðablöndunar.

Erfðablöndun hefur mælst í flestum laxastofnum í Noregi sem rannsakaðir hafa verið.

Erfðablöndun getur brotið upp náttúrulega aðlögun, breytt erfðasamsetningu (gert þá líkari eldislöxum) og valdið erfðafræðilegri einsleitni laxastofna.

Áhrifin geta komið fram í hnignun stofna, breyttri lífssögu, minni getu til að bregðast við loftslagsbreytingum og minni líffræðilegri fjölbreytni.“

Þetta er staðan. Látið þetta ganga áfram sem víðast!

Fiskeldislektorinn er innanbúðarmaður í þessum skaðlega iðnaði. Leyfum honum ekki að rugla fólk í ríminu.

Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2019-2023