Rannsóknir norskra og sænskra vísindamanna staðfesta að erfðamengun frá norskum sjókvíaeldislaxi er útbreidd í villtum laxastofnum í ám í Svíþjóð. Erfðablöndunin hefur veruleg áhrif á getu villtra stofna til að komast af í náttúrunni.

Sænsku árnar eru víðsfjarri norsku sjókvíaeldiskvíunum þaðan sem eldislaxinn sleppur.

„Það sem er skelfilegt er að skaðinn er skeður,“ segir Sten Karlsson, yfirmaður rannsókna hjá Norsku náttúrufræðistofnunni (Norsk institutt for naturforskning) í þessari frétt NRK. Hann bendir á að til þess að vernda villtu stofnana dugi ekki hreinsa eldislax úr ám því eldislaxar halda áfram að sleppa úr sjókvíum og valda skaða.

Skaðsemi þessa iðnaðar er miklu útbreiddari en talsmenn hans vilja viðurkenna. Það á við í Noregi og hér á landi.

Staðreyndin er sú að stóru sleppislysin eru ekki stærsta vandamál sjókvíaeldisiðnaðarins heldur stöðugur leki smálaxa úr sjókvíunum. Sá fiskur blandar sér í hóp villtra laxa þannig að ekki er hægt að greina þá fiska sjónrænt þegar þeir ganga svo í árnar eftir langa dvöl í hafi og valda svo meiriháttar tjóni þegar eldisgenin menga villta stofna.

Auðvitað á það að vera skilyrðislaus krafa til þeirra sem vilja stunda fiskeldi að sú aðferð sem þeir nota tryggi að:

1) Enginn eldislax sleppi í sjó eða vatnsföll.

2) Skólpi og eiturefni sé ekki losað beint í hafið.

3) Að starfsemin skaði ekki lífríkið.

Sjókvíaeldi í opnum netapokum sem hanga á flotgrindum uppfyllir ekkert af þessum skilyrðum.