Enginn hjá Arctic Fish hefur þurft að axla ábyrgð á því að láta gríðarlegan fjölda eldislaxa sæta ólýsanlegri þjáningu. Sjáið þessi vesalings dýr. Hverslags fólk stendur svona að verki?

Svo rífur norski forstjóri eiganda Arctic Fish, sjókvíaeldisrisans MOWI, bara kjaft í fjölmiðlum í Noregi og kennir íslenskum stjórnvöldum meðal annars um þetta ástand og segir hér hafa skort umgjörð.

Minnir hann þar á mann sem ákveður að kveikja á þúsundum kerta í húsi sínu og skamma svo stjórnvöld fyrir að hafa ekki slökkvibíl tiltækan þegar húsið brennur til grunna.

Heimildin greinir frá:

Ivan Vindheim, forstjóri norska laxeldisfyrirtækisins Mowi sem á meirihluta í Arctic Fish á Ísafirði, hefur ekki viljað svara því hvort laxalúsafaraldurinn sem kom upp hjá fyrirtækinu í Tálknafirði nú í haust hafi haft einhverjar afleiðingar fyrir einhvern eða einhverja af starfsmönnum Arctic Fish. Þetta segir Ivan Vindheim í viðtali við norska blaðið Dagens Næringsliv. „Ég vil ekki ræða slíka hluti við fjölmiðla. Allt sem lítur að einstaka starfsmönnum lítur ströngum trúnaði.“

Talsverður fréttaflutningur var um lúsasfaraldurinn í norskum fjölmiðlum …  Sá fjölmiðill sem fjallaði einna mest um málið í Noregi var Dagens Næringsliv.

Forstjóri Arctic Fish, Stein Ove Tveiten, segir í svari sínu við spurningum Heimildarinnar um þessi ummæli Ivan Vindheims og hvort einhver hafi sætt ábyrgð á lúsafaraldrinum að hann geti ekki tjáð sig um þetta. „Ég er ekki með nein komment um þetta,“ segir hann í svari í sms-skilaboðum. …

Í viðtali segir Ivan Vindheim að Arctic Fish sé einfaldlega ekki komið nægilega langt í sínum rekstri til að uppfylla kröfur Mowi, sem er stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi. Mowi hefur átt meirihlutann, 51 prósent í Arctic Fish, síðan í janúar. „Við getum bara sagt það hreint út að þetta fyrirtæki er ekki enn búið að ná þeim standördum sem við hjá Mowi setjum. Slíkir atburðir eiga ekki að eiga sér stað. Það koma upp vandamál í tengslum við lús í öllum löndum þar sem við eigum og rekum sjókvíar og við höfum tekist á við þetta með góðum hætti á öllum öðrum stöðum. Þetta ætlum við líka að gera á Íslandi til að þetta gerist ekki aftur. Það er engin ástæða fyrir því að þetta þurfi að vera svona á Íslandi.“

Vindheim sagði að laxalús hefði ekki verið vandamál á Íslandi hingað til. „Lús hefur ekki verið vandamál á Íslandi í gegnum og ég held að bæði Arctic Fish og íslenskar stofnanir hafi sofið svolítið á verðinum. Við verðum reiðubúnir næst.“