Áfram höldum við að birta valda kafla úr 16 blaðsíðna umsögn okkar um Lagareldisskýrslu Boston Consulting Group, sem gerð var að beiðni Matvælaráðuneytisins.

Í skýrslunni eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir.

Það er mat okkar hjá IWF að skýrslan sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.

Fullyrðing BCG
„Bent hefur verið á að stór hluti vinnuafls í lagareldi í dag er erlent og í mörgum tilfellum sótt í gegnum starfsmannaleigur. Ekki hefur verið gert sérstaklega ráð fyrir því í greiningunni en ef sú staða helst óbreytt hefur það mögulega áhrif til minnkunar á tekjuskatti einstaklinga.“

Athugasemd IWF
Hér vantar greiningu á því hver staðan er nú. Hversu hátt hlutfall vinnuaflsins í sjókvíaeldinu er erlent farandverkafólk sem dvelur hér skemur en sex mánuði og skattskil því takmörkuð hér? Hver er líkleg þróun? Á það hefur verið bent að á næstu árum vanti 8.000 til 12.000 manns á íslenskan vinnumarkað. Hvaða áhrif hafa þessi mögulegi vöxtur á þá tölu? Mun þurfa að mæta honum alfarið með innfluttu vinnuafli?

Ljósmyndin sýnir löndun á Þingeyri á eldislaxi sem drapst í sjókvíum Arctic Fish 2022.