Við höldum áfram að birta valda kafla úr 16 blaðsíðna umsögn okkar um Lagareldisskýrslu Boston Consulting Group, sem gerð var að beiðni Matvælaráðuneytisins.

Í skýrslunni eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir. Það er mat okkar hjá IWF að skýrslan sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.

Fullyrðing BCG:
Í skýrslu Boston Consulting Group segir um fjölgun íbúa á svæðum með fiskeldi á Austfjörðum:
„Þar af hefur fjölgunin verið um 15% frá árinu 2011, þegar fiskeldi hófst í miklu magni.“

Athugasemd IWF:
Þarna eru alvarlegar rangfærslur um hvenær fiskeldi hófst í miklu magni á Austfjörðum og fjölgun íbúa því sett í rangt samhengi.
Sjókvíaeldi á laxi hófst ekki í miklu magni á Austfjörðum 2011. Árið 2011 var HB Grandi með smávægilegt þorskeldi í Berufirði. Því lauk 2012.

Fiskeldi Austfjarða var stofnað árið 2012. Gengið var frá handhafabreytingu á starfsleyfi fyrir fiskeldi í Berufirði frá HB Granda til Fiskeldis Austfjarða þann 19. júní 2012. Það sumar voru sett út 48.000 laxaseiði í sjókvíar í firðinum.

Sjá eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar um Fiskeldi Austfjarða frá 2012.

Í eftirlitsskýrslum á vef Umhverfisstofnunar er hægt að skoða hvenær sjókvíaeldi hófst og í hvaða fjörðum.

Ekkert sjókvíaeldi á laxi var í Reyðarfirði eða Fáskrúðsfirði fram til 2017. Eldislax kom ekki í sjókvíar í Berufirði í teljandi magni fyrr en 2014.

Fullyrðing skýrsluhöfunda BCG, „fiskeldi hófst í miklu magni“ árið 2011 á Austfjörðum, er því röng. Ekki þarf að fletta upp í eftirlitsskýrslum Umhverfisstofnunar til þess að komast að því. Öll þau sem hafa fylgst með framgangi sjókvíaeldis við Ísland vita að það hófst ekki í miklu magni á Austfjörðum árið 2011.