Bubbi hittir naglann á höfuðið, eins og svo oft áður:

Sjókvíaeldi á Laxi er Skaðræði

Laxeldi í sjókvíum er skaðræði. Það er skaðlegt náttúru landsins, það er skaðlegt þorpum landsins. Norðmenn komu hingað og hirtu auðlindina með hjálp örfárra heimamanna og pólitískra húskarla. Þeir gerðu það sem þeir hafa gert í öðrum löndum: keyptu áhrifamenn í hverju þorpi fyrir sig og þá sem stjórnuðu umræðunni og fóru með möntruna um að allir heimamenn fengju vinnu, þeir væru að bjarga þorpinu frá hruni. Þannig þögguðu þeir niður gagnrýnisraddir og gátu óáreittir flutt allan arð úr landi.

Allt sem ég sagði og skrifaði fyrir nokkrum árum um það hversu skaðlegur þessi iðnaður væri og að það yrðu slysasleppingar í tonnum taldar hefur raungerst. Öll orð þeirra um að lúsin yrði aldrei vandamál, kvíarnar væru sérstaklega gerðar til að þola íslenskt veðurfar, hafa fallið um sjálf sig. Starfandi þingmenn og ráðherrar í þessum málaflokki þá og nú bera sökina á hvernig þetta hefur farið.

Hvernig getur það gerst að erlendir aðilar fái að koma hingað og taka firði og þorp í gíslingu, fái auðlindina gefins og ráðherra setji kíkinn fyrir blinda augað, vitandi sannleikann, að aðeins örfáir heimamenn fá að vinna við þetta og norsku aurgoðarnir og íslenskir vinir þeirra græði milljarða? Að ala lax í kvíum á hafi úti er náttúruvá af hamfaragráðu. Það er vitað að landeldi er það sem allir gætu sætt sig við en svar þeirra botnlausu er að það sé of dýrt – við græðum ekki nóg! Talsmenn þeirra á landsbyggðinni eru ekki margir í raun. Bæjarins Besta, sem er blað þeirra norsku fyrir vestan, hefur fyrrverandi sósíalista og þingmann og núverandi talsmann eitraðs kapítalisma sem húskarl. Hann er notaður til þess að pönkast á fólki sem er andsnúið sjókvíaeldi og hefur margoft verið slegið á hreistruga hendi ritstjórans sem angar af peningalykt og hann áminntur. Norðmenn hafa sett sína húskarla í að sveima um netið og ráðast að öllum þeim sem eru andsnúin laxeldi í sjó með öllum tiltækum ráðum og er oftar en ekki uppáhalds taktík þeirra að væna menn um dýraníð sem veiða lax á stöng og sleppa honum aftur í ána. Þá sem hinsvegar hafa séð aðbúnað laxanna í kvíum setur hljóða. Laxarnir svamla þar um í þúsundatali, rotnandi, þaktir lús sem er að eta þá lifandi.

Þeir sem keyra vestur í dag og Austur sjá ekki óspillta náttúru heldur firðina í hlekkjum Norðmanna, líkt og rusl hafi safnast saman og rekið inn fjörðinn og enginn hafi hirt um að farga því. Sjókvíaeldi er skaðræði, það skilar litlum sem engum tekjum inní landið. Örfáir menn eru að græða milljarða á því að hafa fengið firði landsins gefins. Sumum hlutum er ekki hægt að horfa framhjá því óréttlætið og spillingin hrópa á mann, sem og ónýtir firðir landsins.