Fulltrúum IWF var boðið að sitja ráðstefnu í London í vikunni þegar fjögur bresk náttúruverndarsamtök, sem hafa barist fyrir velferð villtra laxa- og silungsstofna, tóku höndum saman undir nafninu The Missing Salmon Alliance.

Vandi þessara villtu stofna er mikill á Bretlandseyjum. Í hafinu glíma þeir við sömu breyttu aðstæður og okkar stofnar vegna loftslagsbreytinga og súrnun sjávar. Þegar kemur að strandlengjunni lenda þeir í lúsageri og jafnvel sjúkdómum frá sjókvíum með eldislaxi og regnbogasilungi. Í ánum flækist sleppifiskur úr kvíunum með ömurlegum afleiðingum. Ólíkt Bretlandi renna hins vegar langflestar ár okkar um landsvæði sem eru ósnert af iðnaðarlandbúnaði með tilheyrandi mengun. Meira að segja að áin sem rennur um miðja Reykjavík er enn blómleg laxá ólíkt því sem á við um Thames í miðju London. Hún var einu sinni meðal mestu laxáa Evrópu en laxinn er löngu horfinn þaðan vegna ömurlegrar umgengni mannsins um ánna. Sama gildir um fjölmargar aðrar ár í þéttbýli á Bretlandseyjum.

Eitt af erindum á ráðstefnunni fjallaði um sameiginlegt rannsóknarverkefni Hafrannsóknastofnunar og Imperial háskólans í Englandi á stöðu villta laxins hér.

Mikill áhugi er meðal þessara umhverfisverndarsinna á Bretlandi fyrir því sem er að gerast á Íslandi. Hér er eitt síðasta vígi villta Atlantshafslaxins. Umhverfi okkar er sem betur fer enn mun minna markað af mannskepnunni, hér hefur verið bannað að veiða lax í net í sjó frá 1931, netaveiðar við árósa og í ám eru nánast aflagðar og dagar hömlulausra maðk- og spúnveiði eru að baki í stangveiðinni.

Hvar sem við frá IWF eigum í samskiptum við útlendinga spyrja þeir sömu spurninga? Hvernig dettur ykkur í hug að hleypa opnum sjókvíum með norskum eldislaxi ofan í firðina ykkar? Þið sem hafið verið svo farsæl í umgengni við villta laxinn miðað við allar aðrar þjóðir.

Eins sorglega og það hljómar eru einu svörin við þessum spurningum að það sem ræður för eru hagsmunir örfárra einstaklinga og stórfyrirtækja og að við vorum gripin hér í bólinu með vonlausa löggjöf þegar þeir byrjuðu að sölsa undir sig firðina einn á eftir öðrum.

https://www.facebook.com/icelandicwildlifefund/photos/a.287660261701544/781078795693019/?type=3&theater