„Alþingismaðurinn fyrrverandi Kristinn H. Gunnarsson sakar – af sinni alkunnu stillingu – Gunnlaug Stefánsson, fyrrverandi presti í Heydölum, um ósannindi í grein hér Vísi fyrir að benda á þessi afglöp: að afhenda fáum svotil ókeypis afnotarétt á auðlindum almennings, sama rétt þeir hafa svo selt áfram fyrir milljarða króna,“ skrifar Jón Kaldal í svari til Kristins þar sem er meðal annars leiðréttur misskilningur hans um meint endurgjald fyrir framleiðsluleyfi í sjókvíaeldi.

Í grein sinni segir Jón ennfremur:

„Í ásökunum sínum í garð séra Gunnlaugs hengir Kristinn sig í að hér á landi eru leyfin gefin út tímabundið en í Noregi eru ekki tímamörk við útgáfu þeirra. Í báðum löndum eru leyfin háð því að starfsemin sé stunduð eftir lögum og reglum. Ef ekki þá er hægt að fella þau niður. Hér eru þau svo endurútgefin ef eftirlitsstofnanir meta svo að skilyrðum sé fullnægt.

Auðvelt er að bera saman hvernig markaðurinn verðmetur leyfin út frá þessum mismunandi aðferðum við útgáfu þeirra. Í stuttu máli breytir þetta engu. Þeir sem eru að kaupa hlut í sjókvíeldisfyrirtækjum hér nota norska verðmatið í þeim viðskiptum. Þannig gerir enginn ráð fyrir að leyfin hverfi eftir 16 ár heldur að þau verði endurnýjuð í önnur 16. Án greiðslu.

Leyfin eru sem sagt þau verðmætin sem verið er að greiða fyrir. Í Noregi eru leyfin boðin upp og gríðarlegar upphæðir greiddar fyrir þau. Hér eru leyfin enn afhent fyrir nánast ekki neitt.“