Auðvitað á að stoppa nú þegar alla leyfisveitingar. Þegar núgildandi áhættumat um erfðablöndun (segir til um hversu mikið af eldislaxi er í sjókvíum) var gefið út 2020 var Hafrannsóknastofnun ekki með neitt í höndunum annað en eigin líkindaútreikninga.

Á þeim grunni kaus stofnunin að stórauka heimildir fyrir magnið ef eldislaxi í sjókvíum við landið. Það hefði aldrei verið gert ef nýbirtar upplýsingar um magn erfðablöndunar hefðu legið fyrir. Rannsóknargögnin þar að baki eru frá 2020 og eru frá tíma sem sjókvíaeldi var langtum umfangsminna en nú.

Augljóst er að stofnunin hlýtur að leiðrétta þessi glæfralegu mistök við útgáfu næsta áhættumats sem á að koma út á næstu vikum. Lögum samkvæmt þarf að gefa út nýtt mat að lágmarki á þriggja ára fresti.

Núgildandi mat heimilar allt að 106.500 tonna ársframleiðslu. Sú geigvænlega erfðablöndun sem nýbirt rannsóknargögn frá 2020 sýna, varð þegar ársframleiðslan var 6.900 tonn, eða 1/15 af því sem Hafrannsóknastofnun taldi óhætt að leyfa.

Sú tilraunamennska í íslenskri náttúru sem Hafrannsóknastofnun hefur heimilað er óásættanlegt hættuspil sem verður að stöðva strax. Skaðinn er nú þegar orðinn mikill.

Í ítarlegri umfjöllun RÚV um málið kom m.a. fram:

… Eldi í opnum sjókvíum er einungis leyft á Austfjörðum og Vestfjörðum og Vestfirðirnir hafa borið uppi aukninguna síðustu ár, þar eru fimm fyrirtæki í sjókvíaeldi og þar voru í fyrra framleidd rúmlega 30 þúsund tonn og eldi í nánast hverjum einasta firði, nema Jökulfjörðunum.

Dýrafjörður er í hámarksnýtingu en í fyrra fór magnið þar yfir leyfileg mörk. Þá er útlit fyrir að kvótinn fyrir eldi á frjóum löxum við Ísafjarðardjúp fyllist í ár.

Rekstrarleyfi fyrir 8000 tonna eldi Arctic Sea Farm utarlega í djúpinu er á lokametrunum og verður, samkvæmt Matvælastofnun, gefið út í september, að öllu óbreyttu. Arnarlax, sem er með umsókn um 10.000 tonna eldi í ferli, þarf þá að sætta sig við eldi á ófrjóum laxi sem er ekki jafn vinsæll kostur. …

Fyrir austan er eldi í fjórum fjörðum, tvö fyrirtæki sem eru bæði í eigu Icefish farm. Fiskeldi Austfjarða er með leyfi fyrir tæplega þrjátíu þúsund tonnum í Berufirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði og sækir nú um 10 þúsund tonna eldi í Seyðisfirði, þeim áformum hefur verið mótmælt síðustu daga.

Samkvæmt Matvælastofnun er mikil rannsóknarvinna eftir og rekstrarleyfi í höfn í fyrsta lagi á næsta ári. Laxar fiskeldi sem eru með leyfi fyrir 16000 tonna eldi í Reyðarfirði og vilja sameina þau í eitt. Þar eru 4000 tonn eftir.

Ríkisendurskoðun birti í vor svarta skýrslu um stjórnsýslu fiskeldis. Mikil vinna stendur nú yfir við endurskoðun laga um greinina og frumvarps að vænta næsta vor. Matvælastofnun ætlar að afgreiða tvær leyfisumsóknir í djúpinu og svo umsókn um eldi í Seyðisfirði. -Vinnu við aðrar og nýrri umsóknir verður frestað þar til lagaumhverfið skýrist.

… Almennt er magn laxa í kvíum við landið langt undir því sem það má vera, fór hæst í 37 þúsund tonn árið 2021. Hafrannsóknastofnun metur burðarþol fjarða, eða hversu mikla mengun lífríkið þolir. Hafró gefur líka út áhættumat vegna erfðablöndunar. Áhættumatið er strangara og stýrir því hversu mikið eldið má vaxa, nú er miðað við að það megi að hámarki fara í 106 þúsund tonn af frjóum eldislaxi.

Nýbirt rannsókn stofnunarinnar sýndi að rúmlega 4 af hverjum 100 löxum voru eldisblendingar og sumir þeirra fundust í 250 kílómetra fjarlægð frá eldissvæðum. Sú rannsókn tók þó til laxa sem klöktust þegar eldi við Ísland var í mýflugumynd miðað við það sem nú er eða um einn sjötti.