Talsmenn sjókvíaeldisins klifa í sífellu á mikilvægi þess fyrir atvinnusköpun í byggðalögunum þar sem sjóvkíarnar eru staðsettar. Þetta er glópagull. Tækniþróunin í þessum geira er hröð og staðbundin störf eru að hverfa hratt í þessum iðnaði. Þar erum við ekki að tala um fjarlægð framtíð heldur veruleikann hér og nú.

Verksmiðjuskipið Norwegian Gannet hefur verið við sjókvíarnar fyrir vestan að sjúga laxinn upp úr kvíunum og slátra um borð. Siglt verður með laxinn til Danmerkur í vinnslu og pökkun. Þau störf eru utan landhelginnar.

Við skulum athuga að þetta er fyrsta skipið sinnar tegundar. Þegar það var sjósett fyrir tveimur árum var það kallað „game changer“, ekkert yrði eins í þessum geira eftir tilkomu þess.

Skipum einsog Norwegian Gannet mun bara fjölga. Þetta er sama þróun og við höfum orðið vitni að í sjávarútveginum, þar sem störfum hefur fækkað í stórum stíl undanfarna áratugi.

Þessu til viðbótar er staðan nú þegar þannig að hægt er að fjarstýra fóðrun í sjókvíunum hvaðan sem er í heiminum. Fóðruninni er stýrt af fólki sem situr við nettengda skjái. Þeir geta verið í Noregi, eins og var nefnt í meðfylgjandi frétt á sínum tíma, eða frá tækniveri í Indlandi sem er ekki ólíklegt að þróunin verður sé miðað við hvernig eigendur sjókvíaeldisfyrirtækjanna reyna sífellt að lækka rekstrarkostnað og hámarka hagnað.

Það er ekki í þágu brothættra byggða að veðja öllu á þennan fábreytta iðnað þar sem verða væntanlega bara fá einföld störf á staðnum þegar upp er staðið.

Í þessu samhengi er ágætt að hafa í huga að SalMar, móðurfélag Arnarlax, sem metið er á mörg hundruð milljarða króna í norsku kauphöllinni, er með 1.600 starfsmenn alls. Það er svipaður fjöldi og var hjá WOW þegar félagið féll.