Baráttusystkini okkar í Tasmaníu voru að birta þessa 13 mínútna mynd sem samanstendur af myndefni frá sjókvíaeldi á laxi þar sem það er stundað um allan heim. Velferðarvandinn í þessum iðnaði er hrikalegur. Með „kynbótum“ er vaxtarhraðinn til dæmis orðinn þannig að stór hluti fiskanna er með aflagaða beinagrind og höfuðkúpu vegna þess að beinaþroskinn nær ekki að fylgja vaxtarhraðanum. Þetta gerir líf eldislaxanna óbærilegt.

Í myndinni er fjallað um notkun sýklalyfja í eldinu við Tasmaníu. Það á ekki við hér. Allt annað gerir það hins vegar. Vansköpun, sníkjudýr, sjúkdómar, meðhöndlun vegna lúsar eru því miður hluti af þessum iðnaði og afleiðingarnar eru að hræðilega hátt hlutfall af eldislaxinum drepst í kvíunum.

Í þeim efnum er ástandið verra hér en til dæmis í Noregi. Í fyrra drápust um 19 prósent eldislaxa sem settir voru í sjókvíar hér en þetta ömurlega hlutfall var 15 prósent við Noreg og þótti algjörlega óásættanlegt.

Við vörum við myndefninu í þessari stuttmynd. Það er skelfilegra en orð fá lýst. Hver vill borða matvöru sem er framleidd með þessum hætti?