Þetta er ástandið. Sjórinn blóðrauður vegna þörungablóma. Slíkur blómi drap nær allan eldisfisk í firðinum fyrir rúmum 20 árum.

Samkvæmt heimildum okkar hjá IWF er sjórinn byrjaður að taka á sig sama lit í Reyðarfirði þar sem er nú mikið sjókvíaeldi á laxi. Marglyttur drápu allan eldisfiski í Mjóafirði fyrir tæpum 20 árum og eru víst í miklu magni fyrir austan þessar vikurnar.

Eldisdýrin eiga sér enga undankomuleið.

Í frétt RÚV er rætt við Sigfinn Mikaelsson sem stóð fyrir fiskeldi í Seyðisfirði í tólf ár til 1998. Nú berst hann gegn eldi í firðinum meðal annars í ljósi reynslunnar einsog segir í fréttinni.

„Það voru ýmis vandamál sem komu upp en eitt var alltaf á vorin á haustin. Það voru þörungavandamál. En 1997 kemur svona blómi eins og er hérna núna. Sjórinn varð bara kolmórauður og á einni nóttu drapst svo til allur fiskurinn og kvíarnar stóðu bara á staut þegar við komum út eftir um morguninn. Þessir þörungar sem við sjáum núna þetta eru svokallaðir eiturþörungar. Þeir þurrka upp súrefnið og leggjast á tálknin á fiskinum og drepa hann. Hann drepst og lendir bara í botninn. Ég er að rifja þetta upp fyrst og fremst út af því að fyrirhugað er hér 10 þúsund tonna eldi sem er í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun. Við sjáum sjóinn núna. Ég myndi ekki bjóða í það að vera með 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum í dag. Ég get svo til garanterað að fiskurinn væri allur í botninum á nótunum núna, miðað við þá reynslu sem ég hef af þessu,“ segir Sigfinnur við RÚV.