Neytendastofa hefur bannað Arnarlaxi að nota fullyrðingar um sjálfbærni í markaðssetningu og vörumerkjum félagsins.

Fullyrðingarnar eru taldar villandi fyrir neytendur.

Þetta kemur ekkert á óvart. Sjókvíaeldisfyrirtæki hafa þurft að semja sig frá dómsmálum með miklum tilkostnaði í öðrum löndum vegna sams konar tilrauna til að villa um fyrir neytendum.

Það er ekkert sjálfbært við sjókvíaeldi. Starfsemin er beinlínis flokkuð sem mengandi iðnaður hjá Umhverfisstofnun enda dælir sjókvíaeldi óhreinsuðu skólpi sem inniheldur skít, fóðurleifar, lyf, skordýraeitur, örplast og þungmálma beint í sjóinn, magnar upp sjúkdóma og sníkjudýr í hafinu, skaðar villta laxastofna með erfðablöndun og fer hræðilega með eldisdýrin.

Munið að spyrja hvaðan laxinn kemur ef þið ætlið að kaupa reyktan eða grafinn lax fyrir jólin. Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu!

Vísir greinir frá:

Neytendastofa taldi að eftirfarandi fullyrðingar, meðal annars á heimasíðu Arnarlax, þörfnuðust nánari skýringa og sannanna:

  • „Sustainability it´s in our nature.“
  • „Sustainable salmon farming at Arnarlax takes place on the fish´s terms.“
  • „Arnarlax ensures the quality of its salmon by striving to support fish health and reduce environmental impact with innovative aquaculture.“
  • „It is important to us that our fish feed have the correct balance of nutritional content, consistency and taste, as well as being gentle on the environment.“
  • „For example, in the winter we use a special blend of feed and require our feed suppliers to ensure that the ingredients they use are sustainability certified.“
  • „All Arnarlax farming activity has been through an environmental assessment process.“
  • „Þá hélt félagið því fram að fullyrðingar þess byggist á gögnum og faglegum niðurstöðum óháðra aðila, leyfisveitenda og eftirlitsstjórnvalda. Enn fremur sé það mat félagsins að Neytendastofa hafi ekki heimildir til að krefjast þess að það færi fram sérstaka sönnun fyrir eða afstöðu til þeirra orða sem fram komi í orðhluta vörumerkja félagsins,“ segir í úrskurðinum. …

Í niðurstöðu Neytendastofu kom fram að það væri álit stofnunarinnar að notkun Arnarlax á hugtökunum sjálfbær og sjálfbærni væri almenn og óljós og ekki studd nægilegum gögnum.

„Markaðssetningin gefi þannig hinum almenna neytanda ranglega til kynna að laxeldi félagsins í sjókvíum væri að fullu sjálfbært og hafi þannig engin eða í það minnsta hlutlaus áhrif á umhverfið. Að mati Neytendastofu beri að líta til þess að notkun Arnarlax á fullyrðingum sem innihalda hugtökin sjálfbær og sjálfbærni sé nokkuð víðtæk og áberandi. Notkunin væri tengd við orð- og myndmerki félagsins sem komi fram á vefsíðu félagsins, í blaðaauglýsingum og öðru markaðs- og kynningarefni.

Að því virtu var það álit Neytendastofu að notkun og framsetning þeirra fullyrðinga og orð- og myndmerkja sem um ræddi væri almenn og óljós og væri því villandi og óréttmæt gagnvart neytendum.