Arnarlax neitar að greiða hafnargjöld samkvæmt verðskrá Vesturbyggðar og sveitarfélagið er því komið í dómsmál við fyrirtækið. Sveitarfélagið hefur lagt í verulegan kostnað og fengið framlög úr Hafnabótasjóði til að mæta þörfum sjókvíeldisfyrirtækjanna. Svona er það ofeldi launað.

Í grein Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, sem birtist á fréttavefnum Bæjarins Besta kemur fram að sveitarfélagið hefur neyðst til að auka lántökur vegna þess að Arnarlax vill ekki greiða það sem því ber.

Allt er þetta eftir norsku bókinni um hvernig þessi fyrirtæki nýta sér yfirburðarstöðu sína gagnvart litlum sveitarfélögum um leið og færi gefst. Og þetta er bara smjörþefurinn af því hvernig ástandið verður ef þessi mengandi og skaðlegi iðnaður fær svigrúm til að stækka hér á landi.

„You ain’t seen nothing yet,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í frægri ræðu í Lundúnum 2005 um íslensku útrásarvíkinganna á sínum tíma og reyndist þar heldur betur sannspár þótt það væri á annan veg en hann sjálfur hélt á þeim tímapunkti. Við vitum hins vegar alveg hvernig þróunin verður með norsku sjókvíaeldisrisana sem eiga nánast allan framleiðslukvótann hér. Yfirgangur og dólgsháttur þeirra í Noregi liggur fyrir. Þetta er ekkert öðruvísi hér.

Í greininni segir Rebekka ma:

„Krafa Vesturbyggðar hefur verið sú að endurskoða þurfi ákvæði hafnalaga vegna fiskeldis, þannig að tryggt sé að tekjur hafna standi undir rekstri hafnanna og þeirri þjónustu sem m.a. fiskeldið krefst. Vesturbyggð og Arnarlax hafa átt góð samskipti allt frá stofnun fiskeldisfyrirtækisins og því eru það mikil vonbrigði að Vesturbyggð hafi ekki annan kost en að fara með málið fyrir dómstóla og fá úr því leyst þar.

Endurskoðun á lagaramma í þessum málaflokki hefur ekki aðeins áhrif á Vesturbyggð og Arnarlax heldur snertir hann öll sveitarfélög þar sem fiskeldi er stundað, sem og fiskeldisfyrirtæki. Atvinnugreinin er tiltölulega ný og í mikilli uppbyggingu. Því er mikilvægt að lagaramminn taki mið af þessari nýju atvinnugrein sem vaxið hefur hratt á síðustu árum. Á sama tíma er mikið undir hjá þeim sveitarfélögum, sem búa við einsleitt atvinnulíf og reiða sig á fiskeldisfyrirtæki hvað varðar atvinnusköpun.

Það er von Vesturbyggðar að lagaumgjörðin fyrir sveitarfélög og fiskeldisfyrirtæki verði endurskoðuð sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari fjárhagslegan og samfélagslegan skaða. Á sama tíma er mikilvægt að allir aðilar sýni samfélagslega ábyrgð. Þá verði ekki fleiri sveitarfélög sett í þá stöðu sem Vesturbyggð er nú í, að þurfa að stefna fyrirtæki fyrir dóm til að fá úr því skorið hvort minni afsláttur til að auka tekjur til að standa undir rekstri hafnarmannvirkja standist skoðun.“