Kæru vinir, svörum kalli okkar góðu félaga á Seyðisfirði! Náttúra og lífríki Íslands þarf á stuðningi sem flestra að halda.

Ákallið á Facebooksíðu félagsins VÁ – Félag um vernd fjarðar:

Gott fólk ! Á morgun 15.september rennur út frestur til að senda inn athugasemd vegna tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir Austfirði. Við biðjum ykkur að leggjast á árar með okkur og senda inn ath.semd. við þessa gölluðu tillögu sem virðist unninn fyrir fiskeldisfyrirtækið og 10 þús tonna laxeldisumsókn þeirra í Seyðisfirði. Það getur skipt sköpum ef mikil andstaða kemur fram við tillöguna. Hér er ath.semd sem má afrita eða nota og aðlaga í ykkar orð.

Athugasemdina er hægt að senda á: hafskipulag@skipulag.is
subject: athugasemd við tillögu um Strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði

eins hægt að skila inn á vefnum á þessum link:

https://www.hafskipulag.is/um/senda-athugasemd/

Með fyrirfram þökk til allra sem gefa sér tíma til að láta sig þetta stóra mál varða.
_________
Sæl verið þið Svæðisráð Austfjarða og starfsmenn Skipulagsstofnunar

Ég ætla að byrja á því að lýsa undrun minni á að Svæðisráð hafi leyft sér að vinna Strandsvæðaskipulagið með ranga mælieiningu hvað varðar helgunarsvæði sæstrengja. Þar á að nota sjómílu en ekki landmílu, það áttu allir að vita. Nú hafa misktökin verið viðurkennd. Þetta breytir heildarmyndinni allri. Það er alla vega ljóst að öll þrjú nýtingarsvæðin í Seyðisfirði lenda yfir helgunarsvæði Farice-1 strengsins en innan þess mega engar akkerisfestingar vera.

Þá spyr ég, fer ekki tillagan eftir þær miklu breytingar, sem varða á helgunarsvæðinu, aftur í kynningu og umsagnarferli?

Í Selsstaðavík eru tvær neðansjávarskriður merktar á korti og fyrir ofan hana erBrimnesfjallið, sem er eitt mesta og versta snjóflóðasvæði í firðinum.

Í Selsstaðavík gerir Svæðisráðið ráð fyrir sjókvíaeldi, sem er matvælaiðnaður, og þar með atvinnustarfssemi , sem má ekki vera á C-svæði ofanflóða skv. vísindafólki Veðurstofunnar.

Hvað er Svæðisráðið að hugsa þarna? Slysaslepping verður mikil ef snjóflóð falla í sjó fram. Engar eldiskvíar standast þessar náttúruhamfarir. Hvað ætlar Svæðisráðið að gera í þessum mistökum sínum, að setja matvælaiðnað á C-svæði?

Siglingaleiðin um hafnarsvæði Seyðisfjarðar, sem nær frá Skálanesbjargi að sunnanverðu að Sléttanesi utan Brimness að norðanverðu , er þröng. Seyðisfjarðarhöfn er grunnetshöfn og ferjuhöfn til nær 50 ára. Skv. samgönguáætlun ber að vernda og tryggja greiða og örugga siglingaleið um grunnnetshafnir landsins, eins og aðrar grunnnetssamgöngur landsins, flugvelli og vegi. Í skipulagstillögu ykkar segir: „Valkostur B getur dregið úr greiðfærni og öryggi siglingaleiða“.

Ég vil mótmæla því að Svæðisráðið leyfi sér að setja fram tillögu, sem getur dregið úr öryggi siglingaleiða. Ég vil mótmæla því að áhættumat siglinga liggi ekki fyrir og eigi ekki að fara í kynningarferli.

Ég vil benda á og mótmæla að nýtingarsvæði séu sett inn í ljósgeira vita og brjóta þar með vita- og siglingalög.

Í Skálanesi er menningar- og fræðslusetur til áratuga.

Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því að Svæðisráð gangi svo mjög nærri náttúrunni í Skálanesbót eins og gert er í tillögu ykkar. Þar hefur græna svæðið verið þurrkað út. Þar er stórbrotið náttúrusvæði, sem ætti að friða í heild sinni, kríuvarp, æðarvarp, uppeldisstaður æðarfugls úr Loðmundarfirði og uppeldissvæði fiska.

Lítið samráð hefur verið við smábátasjómenn, sem eiga hefðbundin fiskmið í Skálanesbót og Skálanesbjargi.

Lítið sem ekkert samráð hefur verið við landeigendur.

Svæðisráð tekur lítið tillit til íbúalýðræðis. Það er lítils virt.

Sjókvíaeldi mun hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í Seyðisfrði, eins og Skipulagsstofnun hefur bent á. Mér finnst Strandsvæðaskipulagið í mótsögn við álit Skipulagsstofnunar á fyrirliggjandi umsókn um sjókvíaeldi , sem lagt er til grundvallar við vinnslu skipulagsins. Það á ekki að vinna Strandsvæðaskipulag út frá hagsmunum eins fyrirtækis.

Lokaspurningin er: Afhverju er valkostur B valinn í Seyðisfirði? Hver eru rök ykkar fyrir því? Ég læt þessa upptalningu duga en margt fleira mætti tína til og setja út á.

Ég óska eftir svari frá ykkur öllum við spurningum mínum.

Bestu kveðjur,