Útbreiðsla fiski- og laxalúsar í fjörðum fyrir vestan þar sem sjókvíaeldi er leyfilegt er mikið áhyggjuefni. Lúsasmit á villtum laxfiskum er mun hærra þar en í þeim fjörðum þar sem sjókvíaeldi er bannað.

Landinn birti í gærkvöldi mjög fróðlega umfjöllun Höllu Ólafsdóttur um rannsókn Margrétar Thorsteinssonar og Hauks Jónssonar á þessari grafalvarlegu stöðu.

Margrét hefur stundað lúsarannsóknir sínar í nokkur ár. Í skýrslu sem hún vann fyrir Náttúrustofu Vestfjarða og var birt í desember 2018 kemur fram að sjókvíaeldi í Patreksfirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Dýrafirði var komið á rautt ljós strax árið 2017 vegna mikils lúsasmits og skaðlegra áhrifa þess á urriða, sjóbleikju og lax.

Ekkert kerfi er til staðar hér á landi í framleiðslustýringu í sjókvíaeldi sem tekur á lúsaálagi starfseminnar á villta stofna. Þetta er óskiljanleg yfirsjón af hálfu löggjafans en þó umfram allt ráðgefandi stofnana, þar sem Matvælastofnun (MAST) ber höfuðábyrgð.

Innslag Landans um rannsóknir Margrétar og Hauks byrjar þegar 8,05 mínútur eru liðnar af þættinum.