Hér eru stór tíðindi. Verulegir gallar hafa fundist á vinnunni að baki áhættumati um erfðablöndun eldislax við villta laxastofna, sem Hafrannsóknastofnun gefur út.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir mistökum við meðferð tölfræðigagna og túlkun rannsókna í áhættumatinu kemur í ljós að forsendur matsins um hversu mikið af eldislaxi er talið óhætt að gangi að meðaltali í ár á Íslandi eru fallnar.

Þetta hlýtur að þýða að framleiðsluþakið, sem segir til um hve mikið má hafa af eldislaxi í sjókvíum, muni lækka verulega.

Í frétt Vísis kemur meðal annars fram:

Jón Scheving Thorsteinsson hjá Arev fór yfir álitsgerð sem hann vann að undirlagi Landsambands veiðifélaga vegna áhættumats Hafró vegna sjókvíaeldis á fundi í morgun.

… Á fundinum kynnti Jón Scheving Thorsteinsson stærðfræðingur frá Arev tölfræði niðurstöður vinnunnar og setti fram gagnrýni á fjölmarga þætti í núverandi áhættumati. Fundinn sátu fulltrúar Matvælaráðuneytis, Hafrannsóknastofnunar, Landssambands veiðifélaga, veiðirétthafa og náttúruverndarsamtaka.

Áhættumatið stýrir því hversu mikið magn af eldislaxi er Hafrannsóknastofnun telur óhætt að hafa í sjókvíum við ísland, án þess að það skaði villta laxastofna.

Jón segir, í samtali við Vísi, að meðaltalsútreikningur eins og sá sem Hafrannsóknarstofnun hefur stuðst við sé ekki heppilegur. Þegar slysasleppingar á borð við þá sem áttu sér stað í Kvígindisdal í fyrra eiga sér stað sé þetta í líkingu við gikkhlaup í gosum, allt fer af stað og það sem áður var viðtekið er farið fyrir bý. …

Í tilkynningu frá Landsambandi veiðifélaga, sem pöntuðu athugunina frá Arev, segir að athugasemdirnar Arev beinast meðal annars að rangri notkun Hafrannsóknastofnunar á norskum rannsóknum sem meta endurkomuhlutfall eldislaxa, það er það hlutfall af strokulöxum sem gengur upp í ár.

„Telja sérfræðingar Arev að túlkun áhættumatsins á niðurstöðum þessara rannsókna sé röng og gangi of skammt. Þá er sett fram gagnrýni á að í áhættumati sé notað tíu ára meðaltal til að meta stofnstærð villtra íslenskra laxastofna, að líkan til að áætla dreifingu stroklaxa sé notað með röngum hætti og að matið nái ekki að fanga áhættu við stóra strokatburði sem verða á tveggja til þriggja ára fresti.“

Jón Scheving sagði á fundinum að ef tekið væri tekið tillit til allra þessa þátta muni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um áhættumat lækka umtalsvert. Eins sagði hann að atburður sem átti sér stað hjá Arctic Fish árið 2023 gerði það að verkum að núverandi áhættumat næði á engan hátt utan um slíka atburði.