Innan MAST virðist ríkja furðuleg meðvirkni með þeirri starfsemi sem stofnunin á að hafa eftirlit með og gefur út rekstrarleyfi fyrir eins og bent á í greininni hér fyrir neðan.

„Í Arnarfirði á að tvöfalda sjókvíaeldið þrátt fyrir að lús hafi verið þar mikið vandamál á undanförnum árum. Afleiðingarnar verða ekki bara slæmar fyrir villta lífríkið, vegna eiturefnanotkunar og lúsaplágunnar sem berst úr kvíunum, heldur munu eldisdýrin líða mikla þjáningar. Laxalúsin étur þau beinlínis lifandi.

Allt kunnáttufólk um sjókvíaeldi veit að með auknum fjölda eldislaxa í firðinum mun vandamálið stigmagnast. Lúsin er einfaldlega hluti af sjókvíaeldi á iðnaðarskala. Sú er raunin alls staðar þar sem þessi starfsemi hefur fengið að hreiðra um sig. Illskiljanlegt er af hverju MAST heldur engu að síður áfram að gera tillögu um aukið sjókvíaeldi í Arnarfirði,“ skrifar Inga Lind í greininni sem birtist á Vísi.

„ Frá því að grein fagsviðsstjórans birtist í maí 2017 hefur MAST gefið út sautján staðbundin leyfi fyrir notkun skordýraeiturs eða lyfjafóðurs vegna lúsar á eldislöxum í sjókvíum. Nú síðast voru gefin út þrjú leyfi í september.

Sjö af þessum staðbundnu leyfum hafa verið gefin út vegna lúsasmits í Arnarfirði. Þrátt fyrir þetta mikla álag í firðinum vill MAST heimila þar hátt í tvöföldun á sjókvíaeldi.

Í rannsókninni „Vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum á Vestfjörðum 2017“ sem Margrét Thorsteinsson gerði fyrir Náttúrustofu Vestfjarða kemur fram að marktækt meira lúsasmit og lúsaálag var á suðursvæði Vestfjarða, þar sem sjókvíaeldið er staðsett, en á norðursvæði Vestfjarða þar sem ekki er sjókvíaeldi á laxi.

Margrét bendir á í rannsókn sinni að ef miðað væri við norska umferðarljósakerfinu, sem notað er til framleiðslustýringar í sjókvíaeldi þar í landi, skapaði laxalúsaálag á árinu 2017 mikla áhættu á villta laxfiskahópa í Patreksfirði á öðru tímabilinu (60%), í Arnarfirði á fyrsta tímabilinu (53%) og í Dýrafirði (50%) og Tálknafirði (45%) á þriðja tímabilinu, sem þýðir rautt ljós fyrir svæðin á þessum tímabilum.“