Fyrir þremur vikum birtist frétt í héraðsmiðlinum BB þar sem starfsmaður Arctic Fish, Daníel Jakobsson, sagði að fyrirtækið ætti von á „miklum afföllum“ eldislax í sjókvíum þess í Dýrafirði. Nefndi hann tölurnar 3% og 300 tonn.

Samkvæmt frétt RÚV eru þessar tölur tíu sinnum hærri. Um 30% þess eldislax sem Arctic Fish var með í sjókvíum í firðinum er dauður, alls 3.000 tonn, eða um 500 þúsund fiskar.

Daníel Jakobsson er líka formaður bæjarráðs Ísafjarðar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu. Hver ætli skýringin sé á þessari þriggja vikna gömlu upplýsingagjöf hans sem reyndist svo kolröng að 10 sinnum fleiri eldisdýr eru dauð en þá var sagt?

Hvort veit þetta fólk sem rekur Arctic Fish ekkert hvað það er að gera? Eða var þetta tilraun til þess að leyna umfangi þessara skelfilegu manngerðu hörmunga?

Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að „laxadauðann mætti fyrst og fremst rekja til streitu á fiskinn vegna meðhöndlunar.“

Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Það skaðar umhverfið, villta lífríkið og fer hræðilega með eldisdýrin. Ekki kaupa eldislax í búðum eða á veitingastöðum nema vita fyrir víst að hann komi úr landeldi.