Jón Helgi Björnsson fer yfir stöðuna í góðri grein í Fréttablaðinu í dag.

,,Þrátt fyrir sífelldan áróður norsku eldisfyrirtækjanna og launaðra talsmanna þeirra er eldi í opnum sjókvíum ekki umhverfisvæn iðja. Það stefnir í að árið 2019 verði mesta umfang slysasleppinga frá árinu 2011 af eldislaxi í Noregi. Þar er eldisbúnaður allur samkvæmt sömu stöðlum og hér.”

Jón Helgi segir m.a. í grein sinni:

“Staðreyndin er sú að með stórfelldu eldi á frjóum norskum laxi er tekin óverjandi áhætta með villta laxastofna á Íslandi. Skýrast sést þetta á suðurfjörðum Vestfjarða þar sem greinst hefur erfðamengun í villtum laxastofnum og auknar lúsasýkingar á silungi. Þá veiddust um 20 laxar í Mjólká í sumar og voru sumir þeirra með greinileg eldiseinkenni. Tilkynnt hefur verið um tvær slysasleppingar á frjóum eldislaxi sem gætu leitt til þess að strokulaxar leiti í íslenskar ár á næsta ári. Auðvitað vonum við að þeir fiskar farist í hafi frekar en að ganga upp í árnar. En staðreyndin er hins vegar sú að þegar smærri fiskar sleppa úr eldi þá er afar erfitt að sjá að þeir séu eldisfiskar. Menn geta því auðveldlega veitt slíka fiska og sleppt þeim aftur án þess að gera sér grein fyrir að þeir séu úr eldi.

Allnokkrar vonir voru bundnar við að áhættumat um erfðamengun milli eldislaxa og villtra laxastofna myndi verða grunnur að vernd villtra stofna. Því miður var þetta áhættumat veikt verulega í meðförum þingsins með því að binda það í lög að við gerð áhættumatsins yrði að taka tillit til mótvægisaðgerða eldisfyrirtækjanna. Í stuttu máli þá er með því fiktað í einni af forsendum matsins eldinu í hag. Auðvitað er tilgangurinn að skekkja matið það mikið að það gefi möguleika á frekara eldi, m.a. í Ísafjarðardjúpi. Skýrari rök hefðu verið fyrir því að setja það skilyrði í lögin að taka yrði tillit til áhrifa af laxalús en það hefði þrengt matið og veitt villtum stofnum betri vernd. En til þess stóð ekki hugur þingsins. Þvert á móti var rauði dregillinn lagður fyrir fætur eldismanna við afgreiðslu laganna.

.