Við tökum heilshugar undir með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur: Norðurárdalur á ekki að vera virkjanavöllur. Hann er náttúruperla á heimsvísu sem nauðsynlegt er að koma á náttúruminjaskrá til framtíðar nú þegar að herjað er á hann úr öllum áttum.

Í greininni segir Kristín Helga meðal annars:

„Yfirmenn orkumála í landinu hafa látið hafa eftir sér að hvergi sé hægt að setja niður vindorkuvirkjanir í byggð nema með sátt og samþykki íbúanna sem þar eru fyrir. Að auki hefur komið fram í yfirlýsingum frá þeim að nóg rými sé fyrir vindorkuvöxt á iðnaðarsvæðum Landsvirkjunar við Sigöldu og Blönduvirkjun. Þær virkjanir eru hins vegar í eigu almennings og henta því illa einkafyrirtækjum sem þessi slagur er stöðugt við niður allan Norðurárdal og auðvitað víðar í sveitum lands. Aldrei hafa sveitarstjórnaryfirvöld í Borgarbyggð kannað hug íbúa og landeigenda í Norðurárdal svo fulltrúar fólksins megi vinna eftir þeirra óskum og þörfum. Aldrei hafa þessi sömu yfirvöld kannað drauma, vonir og þrár þeirra sem hafa staðið vörð um dalinn um áratuga skeið, alið þar upp börn og ræktað land mann fram af manni – kannað þeirra áform og áætlanir fyrir dalinn.

Og hvað vill fólkið í dalnum gera, ef einhver skyldi spyrja? Fólkið sem á landið, fólkið sem hefur ræktað landið og annast það, lifað og hrærst í dalnum fagra hefur margvísleg og fjölbreytt áform, sem sum hver hefur tekið áratugi að undirbyggja. Einhverjir rækta skóglendi, aðrir vernda land og loka sárum eftir aldagamla beitaránauð. Til eru þeir sem vilja rækta matjurtir í stórum stíl og hafa um það áætlanir. Margir hyggja á náttúrutengda ferðaþjónustu með heiðalandið í huga og hafa undirbúið þá atvinnustarfsemi lengi með skógrækt og alls kyns virðisauka. Aðrir eru með hefðbundinn búskap. Einhverjir skipuleggja hesta- og gönguferðir inn í framtíðina á milli sveita og yfir einstaka heiðalandið. Heilsuþjónusta, menningartengd þjónusta, menntun og náttúruupplifun. Og þá eru það þeir sem vaka yfir ánni dýrmætu, laxveiðiá á heimsmælikvaða. Þeir þekkja vel hina einstöku upplifun við alla hyli árinnar, frá ármótum og upp á heiði. Nægir að nefna þar Krókshyli Norðurár, víðfræga veiðistaði, sem standa beint á móti fyrirhuguðum vindorkuvirkjunum. Verðmætahrun verður í þeim hluta árinnar við að gera þennan hluta dalsins að orkuiðnaðarsvæði. Það er skrásett og rannsakað áratugina aftur í tímann hve gjöfulir þessir hyljir hafa verið, ekki einasta hvað varðar fiska á land heldur einnig í ánægjustundum viðskiptavina sem koma ár eftir ár og borga veiðileyfi sín til að fá að njóta í kyrrð og náttúrufegurð dalsins en ekki undir virkjanamöstrum á iðnaðarsvæði.“