MAST hlýtur að kæra forráðamenn Arctic Fish. Það voru þeir sem ákváðu að sinna ekki neðansjávareftirliti í rúma þrjá mánuði með sjókvínni sem þessi eldislax slapp út úr því netin í henni voru rifin.
Myndin sýnir eldishrygnu sem hefur parað sig með villtum hæng í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi.
Þetta umhverfisslys er á ábyrgð stjórnenda Arctic Fish. Játning þeirra liggur fyrir. Brot þeirra varða allt að tveggja ára fangelsi.
Morgunblaðið ræddi við veiðimenn í Langadalsá:
„Veiðimenn sem nú eru að veiða í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi upplifðu að áin væri umsetin af eldislaxi. Eldislaxar voru í ósnum og fjórir voru við teljarann nokkru ofar. Í veiðistaðnum Grundarfljóti mátti sjá eitt laxapar og var það komið í stellingar fyrir hrygningu. Þetta voru einu tveir laxarnir í hylnum. Einn af veiðimönnunum tók upp myndband af löxunum í hylnum. Þegar farið var að skoða myndbandið kom í ljós að villtur hængur hafði parað sig við eldishrygnu. …
Reynt verður að ná þessari hrygnu sem er í Grundarfljóti. Veiðimönnum tókst að háfa einn af þeim eldislöxum sem voru við teljarann í Langadalsá en hinir sluppu, í bili. Bjartir og lúsugir fiskar voru í ósnum og það er eitt vandamálið með þessa strokulaxa að enginn veit hvenær þeir taka ákvörðun um að ganga upp í árnar. Það getur verið að gerast langt fram eftir hausti. …“