Eitt helst framlag Íslands við fækkun dýrategunda heimsins er stóraukið iðnaðareldi á laxi í opnum sjókvíum. Þar er þrengt að villtum tegundum, laxi, urriða og sjóbleikju með erfðablöndun, sjúkdómum og sníkjudýrum sem berast í gegnum opna netapokana.
Ofan á þetta bætist mengun sem er blönduð lyfjafóðri, skordýraeitri, plasti og þungmálmum.
Sjókvíaeldi í opnum netapokum er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Í frétt RÚV segir m.a.
Ný rannsókn sem gerð var fyrir Alþjóðlega náttúruverndarsjóðinn WWF leiðir í ljós að þessi þróun er jafnvel enn uggvænlegri en áður var talið og að stofnar villtra hryggdýra, jafnt á láði sem í lofti og legi, hafi að meðaltali minnkað um 69 prósent milli áranna 1970 og 2018. …
Helsta ástæðan er meiri og hraðari eyðing búsvæða hvorutveggja dýra og plantna en dæmi eru um í milljónir ára. Eyðingin er fyrst og fremst af mannavöldum. Milljónir hektara villtrar náttúru eru brotnar undir ræktarland á ári hverju og bætast við það mikla flæmi sem þegar er nýtt til ræktunar á fáum og einsleitum tegundum. Loftslagsbreytingar, ofveiði, ofauðgun, notkun skordýra- og plöntueiturs og önnur mengun hafa líka mikil áhrif. …
Marco Lambertini, aðalframkvæmdastjóri náttúruverndarsjóðsins, segir í inngangi skýrslunnar að mannkynið standi á krossgötum og hvetur leiðtoga heims til dáða. Hann minnir á að mannfólkið þurfi mun meira á náttúrunni að halda en náttúran á mannskepnunni og segir fjölbreytileikaráðstefnuna í Montreal gefa heimsbyggðinni tækifæri til að sameinast um að setja náttúruna í forgang.