Við tökum undir með Jasper. Við skiljum þetta ekki heldur. Vísir ræddi við Jasper:
„Jasper Pääkkönen, finnskur stórleikari, er staddur á Íslandi að vinna að heimildarmynd um Norður-Atlantshafslaxinn og þær hættur sem að tegundinni steðja. Jasper segist óttast að tegundin deyi út á næstu árum og gagnrýnir íslensk stjórnvöld fyrir að hafa leyft fiskeldi að festa rætur á Íslandi, nánast eftirlitslausu fyrstu árin. …
„Ég held að langstærsta vandamálið hér á Íslandi sé fiskeldið,“ segir Jasper.
Í samtali við Vísi bendir hann á að á Íslandi séu tæplega 90 ár sem laxinn gengur í og áætlað sé að stofninn telji um 50 þúsund fiska.
„Svo koma norsk stórfyrirtæki, virði margra milljarða, til Íslands og setja niður opnar netakvíar í firði sem liggja að ám sem laxinn gengur í. Í hverju einasta neti geta verið um 200 þúsund laxar. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að Ísland hafi leyft því að gerast,“ segir Jasper.
Ísland sé þekkt út á við sem land náttúru- og dýraverndar. „En það er alveg óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálamenn hafi opnað dyrnar fyrir norskum milljarðamæringum og leyft þeim að koma og eyðileggja firðina ykkar, vistkerfið, óspillta náttúru og óspilltan laxastofn. Ég meina, það er svo ótrúlegt að ég get ekki varist því að velta því fyrir mér hver sé að hagnast á þessu og hvort hér sé á ferð spilling. Því að á meðan svo rosalega strangar reglur eru í gildi á Íslandi til að vernda hinar ýmsu tegundir þá eru allt í einu engar reglur til að vernda laxinn fyrir þessum erfðabreytta eldisstofni.“