Sláturskipið Norwegian Gannett er komið til Tálknafjarðar sem þýðir að sveitarfélagið verður af aflagjöldum, hafnargjöldum og afleiddum störfum við vinnslu fisksins. Það eru þrjú ár síðan við bentum á að þetta myndi gerast hér. Við höfum séð þetta allt gerast áður. Þeir sem eiga kvóta, í þessari starfsemi sem og annarri, gera allt sem mögulegt er til að hámarka eigin arð.

Skv. frétt Stundarinnar:

„Samtals slátraði Norwegian Gannet eldislaxi sem varð að 500 tonnum af slægðum fiski og flutti skipið afurðirnar beint úr landi án þess að aflinn kæmi nokkru sinni á land á Íslandi. Um er að ræða aflaverðmæti fyrir á að giska 400 til 500 milljónir íslenskra króna. …

Fyrir vikið varð Vesturbyggð, þar sem Patreksfjörður og Bíldudalur eru stærstu þorpin, af svokölluðun aflagjöldum og einnig hafnargjöldum vegna aflans auk þess sem ekkert starfsfólk í landi á Íslandi kom að vinnslu eða flutningi hans. Aflanum úr kvíum Arctic Fish er annars landað á Bíldudal þar sem er að finna sláturhús sem eldislaxinn fer í gegnum að öllu jöfnu.“

Og í þessu samhengi er gott að rifja upp það sem við höfum áður sagt frá hér um mögulega staðsetningu á nýju stóru sláturhúsi fyrir þennan iðnað. Þar eru, samkvæmt valkostagreiningu Arnarlax og Arctic Fish, ofarlega á blaði Grundarfjörður á Snæfellsnesi og Helguvík á Reykjanesi.

Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart að líklegustu staðsetningarnar fyrir mannaflsfrekasta hluta starfseminnar eru utan Vestfjarða. Það er beinlínis skylda stjórnenda sjókvíaeldisfyrirtækjanna að hámarka gróða þeirra. Þegar leyfi verða komin í höfn mun allt verða gert til að tryggja þá hagsmuni.

Þessi leikur hefur verið spilaður mörgum sinnum áður, í Noregi, Skotlandi og Chile. Iðnaðurinn kemur sér fyrir í nafni atvinnusköpunnar. Störfin eru síðan mun færri þegar á reynir og ekki á þeim stöðum sem lofað var.

Slátrun og vinnsla í Helguvík við hlið alþjóðaflugvallarins í Keflavík myndi ekki bara einfalda flutning til annarra landa og losa burt dýra og erfiða landflutninga heldur líka auka aðgengið að ódýru vinnuafli til muna.