Myndefnið úr sjókvíunum fyrir vestan sem fréttastofa RÚV sýndi í kvöld er ekkert minna en skelfilegt. Hvar er eftirlitið með þessum iðnaði? Af hverju er þessi meðferð á eldisdýrunum látin viðgangast?
Í frétt RÚV var rætt við starfsmann Hafrannsóknastofnunar og á honum mátti skilja að þetta ástand væri ekki venjulegt. Í athugasemd við annarri deilingu okkar á þessari síðu um fréttina bendir Ómar Sigurðsson, fyrrum starfsmaður Arnarlax á að það sé ekki rétt:
„Það er rangt það sem fram kom hjá sviðsstjóra Hafró að þarna sé um óvanalegt dæmi að ræða.
Ég vann við fiskeldi hjá Arnarlax og get staðfest að þetta er bara svona í eldinu allt árið, en mest á veturna. Þetta eru sár sem myndast aðalega á veturna og eru kölluð vetrarsár. Þau myndast þannig að laxinn syndir í netið og það myndast sár sem grær ekki og heldur áfram þar til fiskurinn er orðinn blindur, þá fer hann að sveima í yfirborði kvíarinnar. Þessir fiskar eru kallaðir sveimarar, og eru háfaðir úr yfirborðinu daglega. Sárin á hliðunum á laxinum myndast þegar hann nuddast við netið vegna þrengsla. Þá eru sum sárin eftir lúsarbit sem gróa ekki,“ skrifar Ómar.
Í myndskeiðunum sem RÚV sýndi sést í fjöllin við vestfirsku firðina áður en myndavélin fer undir yfirborðið og þessi aumingjans eldislaxar koma í mynd. Samt láta forráðamenn Arnarlax og Arctic Sea Farm sig hafa það að segja við fréttastofu RÚV að þeir efist um að myndirnar komi úr þeirra sjókvíum. Þessir menn kunna ekki að skammast sín.