Hafrannsóknastofnun er að koma fyrir myndavélum í tólf lykillaxám á landinu. Þetta eru góðar fréttir. Ekki er síðri brýningin frá Ragnari Jóhannssyni, sviðsstjóra fiskeldis- og fiskiræktarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, í þessari frétt RÚV sem bendir á að íslenski laxastofninn sé sérstakur og mikilvægt sé að verja hann fyrir erfðablöndun.
Ragnar segir sérlega mikilvægt að vernda íslenska laxinn, enda sé hann ekki eins og hver annar. „Evrópulaxinn greinist upp í þrjár megin greinar, suðurstofninn, norðurstofninn og svo Íslandsstofninn. Svoleiðis að íslenski laxastofninn virðist vera svolítið sérstakur sem hefur eitthvað með söguna að gera og landnám laxins á Íslandi,“ segir Ragnar.
Ragnar segir að í Noregi, þar sem er mikið um fiskeldi, hafi orðið þónokkur erfðablöndun í mörgum ám. Samkvæmt rannsóknum sé að jafnaði um 6% af erfðaefni í norskum ám af eldisuppruna. Þess má geta að samkvæmt nýlegri skýrslu norska vísindaráðsins bera yfir 60% villtra stofna í Noregi einhver merki erfðablöndunar og er um fjórðungur villtra stofna metinn í mjög slæmu ástandi.
„Hér á Íslandi er staðan þannig að það er í rauninni alveg sáralítil blöndun, eiginlega ekki nein. Svoleiðis að við erum með mjög hreina stofna,“ segir Ragnar.