Þetta er því miður fylgifiskur sjókvíaeldis. Kvíarnar eru ekkert annað en risavaxnir netapokar sem slitna óumflýjanlega og sleppislys eru aðeins tímaspursmál.

Samkvæmt fréttatilkynningu Matvælastofnunar lagði Fiskeldi Austfjarða út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort strok hafi átt sér stað, og daginn eftir hafði netanna verið vitjað og þar sem enginn lax hafði þá veiðst var veiðiaðgerðum hætt. Þar með er auðvitað ekkert sagt um hvort laxar hafi náð að strjúka.

„Matvælastofnun barst tilkynning frá Fiskeldi Austfjarða þriðjudaginn 17. september um göt á nótarpoka einnar sjókvíar Fiskeldis Austfjarða við Glímeyri í Berufirði.

Götin uppgötvuðust við köfun í kví og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Fiskeldis Austfjarða var stærsta gatið um 2cm x 15cm og á 1m dýpi, fimm göt voru 2cm x 6cm og eitt gat 2cm x 2cm. Um 150.000 laxar voru í kvínni með meðalþyngd 530g. Við köfunareftirlit sem átti sér stað fyrir rúmum þremur vikum, eða 22. ágúst sl., var nótarpoki heill.“