Þetta er grafalvarlegt mál. Mögulega er hætta á að svokallaðir brunnbátar sem sjókvíaeldisfyrirtækin leigja reglulega frá Noregi til að flytja seiði, geti borið með sér svokallaða SAV-veiru sem veldur skæðum sjúkdómi í laxfiskum eða Pancreas Disease (PD). Í frétt Fréttablaðsins segir að sjúkdómurinn sé óðum að dreifast milli eldisstöðva í Noregi og að sterk fylgni sé milli hans og notkunar brunnbáta.

„Landssamband veiðifélaga hefur sent sjávarútvegsráðherra bréf þar sem ítrekaðar eru áhyggjur af svokölluðum brunnbátum sem leigðir eru erlendis frá til að flytja seiði fyrir fiskeldisstöðvar.

Bent er á í bréfinu að brunnbátar séu í lögum um fiskeldi undanþegnir banni við innflutningi á notuðum eldisbúnaði. Tíðkast hafi að leigja slík tæki frá Noregi. Með vaxandi sjókvíaeldi fylgi ásókn í slíka báta frá Noregi og Skotlandi.

„Telur dýralæknir fiskisjúkdóma vaxandi notkun brunnbáta frá öðrum löndum til helstu áhættuþátta þegar um dreifingu smitsjúkdóma í fiski er að ræða. Samt er það svo að ekki virðist fyrirstaða hjá yfirvöldum fiskisjúkdóma að heimila notkun þeirra,“ segir í bréfinu til ráðherra.

Rakið er að í Noregi hafi smitdreifing með brunnbátum verið rannsökuð og áhættumat gert. Þar hafi verið talið nægjanlegt að sótthreinsa báta er þeir fara milli stöðva. Nýleg rannsókn norska Veterinærinstitutet hafi leitt í ljós að bátarnir beri með sér svokallaða SAV-veiru sem valdi skæðum sjúkdómi í laxfiskum eða Pancreas Disease (PD) sem sé óðum að dreifast milli eldisstöðva í Noregi. Sterk fylgni sé milli PD og notkunar brunnbáta.“