Egill Helgason skrifar hér tilfinningaríkan pistil um þá skelfilegu stöðu sem mannkyn stendur frammi fyrir: „Við erum erum semsagt í óða önn að eyða lífi sem hefur þróast í milljónir ára,“ segir hann í tilefni af skýrslu World Wildlife Fund þar sem er greint frá því að mannkynið hafi þurrkað út 60 prósentum af villtum dýrum jarðarinnar á síðustu 50 árum.
Egill bendir réttilega á að þetta er langstærsta frétt ársins en fær því miður ekki verðskuldaða athygli.
Þessi barátta er háð um allan heim. Hér á Íslandi erum við – sem betur fer mjög hratt vaxandi hópur – að freista þess að verja eitt síðasta vígi villta Norður-Atlantshafslaxins. Í fjölmörgum öðrum löndum álfunnar er búið gjöreyða laxinum. Fyrir rúmlega hundrað árum voru til dæmis sterkir laxastofnar í Thamesá, sem rennur um London, og Rín í Þýskalandi var mesta laxá Evrópu.
Þessir dagar eru löngu liðnir. Mengun, ofveiði virkjanir og ástandið í hafinu hefur þurrkað út laxinn í þessum ám og víðar.
Sömu þættir ógna laxinum okkar, en í dag stafar villta laxinum mestur háski af laxeldi í opnum sjókvíum.
Þar eru aldir fiskar sem er búið að gera, með margra kynslóða ræktun, að hraðvaxta húsdýrum. Þegar þeir sleppa út í náttúruna og blandast villtum stofnum snarminnkar geta stofnanna til að komast af í náttúrunni. Tilraunir taka af allan vafa um þetta.
Í Noregi er nú svo komið að 66 prósent villtu laxastofnanna bera merki erfðablöndunar við eldisfisk. Við höfum enn tíma til að koma í veg fyrir að hér fari á sama veg. En sú barátta er hörð. Meðal annars þarf að takast á við ofurefli á Alþingi, sem með eftirminnilegum hætti vék til hliðar hagsmunum umhverfis og lífríkis þegar það fól ráðherra vald til að hafa að engu úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í þeirri afgreiðslu tók meðal annars þátt fólk sem á tyllidögum talar um mikilvægi þess að vanda okkur í umgengni og nýtingu á náttúru landsins.
Fyrir liggur að Alþingi mun á næstunni ganga frá breytingum á lögum um fiskeldi. Þar er mikið svigrúm til að þétta umgjörðina og færa inn viðurlög sem bíta þegar sjókvíaeldisfyrirtækin virða ekki starfs- og rekstrarleyfi sín. Við munum sjá við þá málsmeðferð hverjir á þingi láta sér fyrir alvöru kært um lífríki og umhverfi Íslands, og hverjir ekki.