Atvinnusköpun í sjávarbyggðum er iðulega nefnd sem helstu rökin fyrir áætlunum um stóraukið laxeldi. Hversu mörg störf eldið mun skapa er hins vegar mikið vafamál og samkvæmt nýjustu fréttum frá Noregi er alveg öruggt að störfum í landi á hverjum stað tengt eldi mun fækka.
Norskt laxeldisfyrirtæki er nú að láta smíða fyrir sig verksmiðjuskip sem verður sérútbúið til þess að leggja upp að sjókvíum, soga úr þeim laxinn, slátra honum um borð og sigla með beint á markað eða í fullvinnslu annars staðar. Hægt verður að slátra tugum tonna á klukkustund um borð og burðargetan er 1.000 tonn.
Jón Kaldal, segir í viðtali við Fréttablaðið:
„Við okkur blasir sú framtíð að fiskeldisfyrirtækin, sem eru í meirihluta í norskri eigu, munu sigla hingað verksmiðjuskipum sínum með erlendri áhöfn, soga upp fiskinn úr kvíunum, slátra honum um borð og sigla í burt. Á Íslandi verða í besta falli örfáir starfsmenn sem sinna viðhaldi kvíanna. Önnur störf og hagnaðurinn verður til utan landhelginnar. Við sitjum hins vegar eftir með umhverfismengunina og óafturkræfan skaða á villta íslenska laxastofninum.“