Við höldum áfram að birta hér valda kafla úr 16 blaðsíðna umsögn okkar um Lagareldisskýrslu Boston Consulting Group, sem gerð var að beiðni Matvælaráðuneytisins.

Í skýrslunni eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir. Það er mat okkar hjá IWF að skýrslan sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.

Fullyrðing BCG:
„Framleiðendur leggja einnig áherslu á að minnka notkun plasts og kopars í ásætuvarnir.“

Athugasemd IWF:
Það er rangt að framleiðendur leggi áherslu á að minnka notkun kopars í ásætuvörnum. Þvert á móti. Arnarlax og Arctic Sea Farm hafa bæði orðið uppvís að því að nota ásætuvarnir sem innihalda koparoxíð þrátt fyrir að í starfsleyfum þeirra hafi verið tiltekið að það væri óheimilt.

Fyrirtækin hafa bæði sótt um leyfi á undanförnum árum um að fá breytingu á starfsleyfum sínum í þá veru að fá að nota koparoxíð og fengið þau leyfi. Arnarlax til dæmis árið 2021.

Arctic Sea Farm sótti um slíka breytingu 2022.

Í svörum Arctic Sea Farm við athugasemd við umsókn fyrirtækisins um notkun ásætuvarna með koparoxíði sumarið 2022, segir: „ASF tekur undir það sjónarmið að vissulega eigi sér stað mikil þróunar og hönnunarvinna varðandi umhverfisvænni ásætuvarnir. Það er þó mat framkvæmdaraðila að ekki sé enn komin lausn á almennan markað sem er samanburðarhæf við ásætuvarnaráhrif koparoxíðs.“

Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunar við þessa umsókn ASF segir: „Hafrannsóknastofnun bendir á að afar mikilvægt sé að horfa til annarra lífvera en eldisfiska þegar verið er að ræða um áhrif kopars á lífríki. Kopar er mjög eitraður þörungum og hryggleysingjum (dæmi um ásætur), þá sérstaklega ungviði hryggleysingjanna. Þá hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á að lífverur (non-target) á svæðum í kringum koparkvíar safna þungmálminum í vefi sína t.a.m. humrar og ígulker.“

Sjá umsagnir vegna tilkynningu um notkun koparásætuvarna Arctic Sea Farm í Arnarfirði og svör framkvæmdaraðila.