Kristín Ása Guðmundsdóttir sagnfræðingur rifjar upp og setur í samheng í meðfylgjandi grein hvernig Hvammsvirkjun var með fölskum hætti komið í nýtingarflokk rammaáætlunar:

„Í stuttu máli gabbaði Landsvirkjun starfshópa rammaáætlunar III og lét þá halda að laxastiginn í Búðafossi hefði verið gerður vegna fyrirhugaðra virkjana.“

Kristín bendir í grein sinni á að „fiskistiginn í Búðafossi og búsvæði göngufiska ofan hans eru endurgjald Landsvirkjunar fyrir tapaða hagsmuni vegna virkjana, en það tryggði/tryggir fullgildi búsvæðanna ofan Búðafoss. Fiskistiginn var gerður í þeim tilgangi að færa laxagengd upp fyrir Búðafoss og mynda ný verðmæti, þ.e. búsvæðin sem núna eru þar.“

Þessar aðgerðir voru sem sagt endurgjald upp í skaða sem Landsvirkjun hafði þegar valdið á lífríkinu.

Við hjá IWF tökum heilshugar undir þessi orð Kristínar:

„Í fyrsta lagi er göngufiskur í Þjórsá, þ.e. laxinn, jafn mikils virði hvort heldur hann er á búsvæðum sem eru 20 ára eða 2000 ára. Það skiptir bara engu máli, sér í lagi ekki þar sem sami laxastofninn lifir bæði fyrir ofan Búðafoss og neðan hann.

Í öðru lagi, þá stangast umrætt sjónarhorn á við viðurkenndar starfsreglur rammaáætlunar þar sem segir að horfa skuli á náttúrusvæði í því ástandi sem ríkir þegar matið fer fram, en ekki út frá því hvernig það var einhverntíma áður. Fyrir ofan fiskistigann í Búðafossi eru um 48% útbreiðslusvæðis laxa í Þjórsá.“

Við hvetjum ykkur kæru lesendur til að lesa þessa mikilvægu grein Kristínar.