Önnur mest lesna aðsenda grein ársins á Vísi í ár er grein Ingu Lindar Karlsdóttur um rangfærslur og ósannindin í málflutningi talsmanna sjókvíaeldisiðnaðarins. Hún verðskuldar að vera lesin aftur.

Skv. frétt Vísis:

„Sá pistill sem var næstmestlesinn og þannig í öðru sæti á lista og þar er engin hófstilling á ferð heldur er fjallað um hitamál. Nefnilega sjókvíaeldi en hann ritar Inga Lind Karlsdóttir fyrrverandi sjónvarpskona en hún situr í stjórn Íslenska náttúruverndarsjóðsins – Th Icelandic Wildlife Fund.

Í greininni, sem birtist 23. apríl, beinir Inga Lind spjótum sínum að Njáli Trausta Friðbertssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í norðausturkjödæmi. Hann hafði ritað lofsamlega grein um hina atvinnuskapandi grein en Inga Lind sagði það tálsýn. Störfin sem Njáll Trausti boðar verði alltaf miklu færri en lofað er og ekki í „nokkru hlutfalli við vöxt þeirra tonna af eldislaxi sem er settur út í sjóvíarnar.“

Grein Ingu Lindar er ítarleg. Hún rekur það að fagurgali um arðbærni greinarinnar sé úr lausu lofti gripinn. Gjaldeyristekjur séu meintar því sá gróði hverfi úr landi. Óljóst sé hver raunverulegur virðisauki sé fyrir þjóðina því sjókvíaeldisfyrirtækin eru yfir 90 prósentum í eigu alþjóðlegra fiskeldisrisa. Hvatinn liggi þannig skýrt fyrir. Ný leyfi fyrir sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum snúast um skammtímagróða fárra en ekki langtímahagsmuni margra.

„Þarna liggur laxinn grafinn. Örfáir einstaklingar hafa nú þegar auðgast feikilega á kaupum og sölu á hlutum í sjókvíaeldisfyrirtækjunum, sem vel að merkja hafa aldrei greitt krónu í tekjuskatt hér á landi og munu ekki gera á næstu árum, uppsafnað tap þeirra er svo gríðarlegt,“ segir Inga Lind í hörðum pistli sínum.“