Á hverju ári drepast 50 til 60 milljónir af svokölluðum hreinsifiskum sem notaðir eru af sjókvíaeldisiðnaðinum í Noregi. Hlutverk þeirra á að vera að hreinsa lús af eldislöxunum en nýjar rannsóknaniðurstöður norsku Hafrannsóknastofnunarinnar sýna að raunverulegur afrakstur þess að setja hreinsifiska í sjókvíarnar er hreint ekki staðfestur. Hitt er vitað að þeir drepast nánast allir með tölu í kvíunum.

Hrognkelsi er uppistaðan í þessu misnotaða „vinnuafli“, en yfir 30 milljón hrognkelsa eru alin til að gegna þessu hlutverki og um 20 milljónir af villtum fiski eru fangaðir og settir í kvíarnar.

Í þessari grein fer Trygve T. Poppe, fyrrverandi prófessor við dýralæknaháskóla Noregs, yfir þessa sögu. Hann bendir á að athæfið er klárt brot á dýraverndarlögum landsins og iðnaðurinn verði að hætta þessari skelfilegu meðferð á fiskinum.