Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tilnefnt sem aðal- og varafulltrúa í samráðsnefnd sjávarútvegsráðherra um fiskeldi Sigríði Ólöfu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu og Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Eru þessi vinnubrögð sambandsins með nokkrum ólíkindum þar sem bæði Sigríður og Karl koma úr byggðarlögum þar sem sveitarstjórnarfólk hefur farið mikinn í baráttu fyrir hagsmunum sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Með þessum tilnefningum gefur sambandið gefur þeim sveitarfélögum þar sem hlunnindi af lax- og silungsveiði er undirstaða byggðar, langt nef. Sérstaklega er einkennilegt að sjá sambandið tilnefna Sigríði því Vestfjarðastofa hefur beinlínis verið í opinskárri hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldisfyrirtækin.

Eins og kemur fram í frétt Fréttablaðsins hefur sveitarstjórn Þingeyjarsveitar óskað eftir skýringum frá sambandinu á þessum vinnubrögðum og bókaði meðal annars á síðasta fundi sínum að „hagsmunir sveitarfélaga í þessu máli eru mismunandi og því mikilvægt að hlutleysis sé gætt.“