Staðreyndir málsins

Fjöldi villtra laxa í Norður-Atlantshafi er aðeins um 25 prósent af þeim fjölda sem mælingar sýndu árið 1970. Svo hröð fækkun er vísbending um að tegundin er í útrýmingarhættu.

Versnandi aðstæður á fæðuslóð í hafinu vegna loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar gera tilveruna sífellt erfiðara fyrir villta laxastofna.

Sjókvíaeldi í fjörðum þrengir enn frekar að möguleikum þeirra til að dafna í náttúrunni. Úr sjókvíunum streyma sníkjudýr, sjúkdómar og sleppifiskur sem veldur erfðablöndun.

1.133-föld stærð íslenska stofnsins

Sjókvíaeldi við Ísland hefur átjánfaldast frá aldamótum. Árið 2021 voru framleidd 45 þúsund tonn af eldislaxi á Íslandi og áætlanir eru um að ársframleiðslan geti orðið allt að 106.500 tonn. Er þar miðað við hámarksforsendur áhættumats erfðablöndunar, sem Hafrannsóknastofnun gefur út. Til að framleiða það magn þarf að hafa um 68 milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland. Það er 1.133-föld stærð íslenska villta laxastofnsins.

Samkvæmt tölum norsku Hafrannsókna-stofnunarinnar má gera ráð fyrir að einn eldislax sleppi að meðaltali úr hverju tonni sem framleitt er í sjókvíum. Þetta þýðir að á hverju ári munu sleppa um tvöfalt fleiri eldislaxar úr sjókvíum en nemur öllum fjölda íslenska villta laxins, en talið er að íslenski stofninn sé nú innan við 60 þúsund fiskar. Þetta getur ekki annað en endað með ósköpum.

Með erfðablöndun eldislax er gripið inn í tíu þúsund ára þróunarsögu villtu stofnanna og stórlega dregið úr getu þeirra til að lifa af í náttúrunni.

Umhverfismál

Laxeldi í opnum sjókvíum skaðar umhverfið og lífríkið



Laxa- og fiskilús, eru sníkjudýr sem leggjast á laxfiska, og eru viðvarandi vandamál í sjókvíaeldi, en þaðan berast þessi skæðu sníkjudýr í margfalt meira magni á villtan lax og sjóbirting, en gæti gerst við náttúrulegar aðstæður. Lúsaplágan hefur iðulega banvænar afleiðingar fyrir ungviði villta laxfiska og oftar en ekki líka fullorðin og hraust dýr.



Aflúsunarefnin sem notuð eru í sjókvíunum, eru skordýraeitur sem er ýmist hellt í opinn sjó eða blönduð í fóðrið sem er dreift í kvíarnar. Þessi efni eru banvæn öðrum sjávardýrum, sérstaklega skeldýrum, þar með talið marfló, humar, krabba og rækju.



Óhreinsaður úrgangur frá kvíunum, þar á meðal saurmengun og fóðurleifar, flæðir óhindrað í hafið og safnast fyrir á sjávarbotninum undir kvíunum.



Frá hverju tonni af eldislaxi í sjókvíum kemur skólpmengun á við sextán manns. Þetta þýðir að árið 2023 rann úr kvíunum í íslenska firði óhreinsuð mengun á við um 720 þúsund manns eða tvöfalt meira en kemur frá öllum íbúum Íslands. 



Ef famleiðslan mun einhvern tíma fá að ná hámarkinu, 106.500 tonnum, mun mengunin vera ígildi 1,7 milljón manns, á hverju einasta ári.



Gríðarleg plastmengun er frá sjókvíaeldi, netapokar, flotholt og fóðurrör eru úr plasti. Við hvert kvíasvæði eru margir kílómetrar af plaströrum sem hörðum fóðurkögglum er blásið um út í hverja sjókví. Þetta virkar eins og sandblástur og slítur plaströrunum hratt með þeim afleiðingum að mikið magn af örplasti berst með fóðrinu til fiskanna og í sjóinn.

Netin í sjókvíunum eru húðuð með koparoxíð sem er eitraður þungmálmur. Það er staðfest að kopar er hættulegur lífríkinu. Með tímanum seytlar kopar út í sjóinn á jónaformi, Cu2+, sem er eitraðasta form málmsins, skaðar viðkvæmar tegundir botndýra og lífríkið almennt.

Sjálfbærni

Framleiðsla á eldislaxi hefur gríðarlegt vistspor.



Villtur lax er rándýr ofarlega í fæðukeðjunni og lifir á smærri fisktegundum og krabbadýrum sem gefa kjöti hans bleikan lit. Eldislax er alinn á fóðri sem er framleitt er úr fiski- og sojamjöli sem blandað er með litarefninu Astaxanthin sem er nauðsynlegt til að gefa laxaflökunum bleika litinn. Án þessara litarefna er hold eldislax ljósgrátt.



Það þarf um tö kíló af villtum fiskafurðum til að framleiða eitt kíló af eldislaxi sem alinn er í sjókvíum.



Um 90 prósent af þeim villta fiski sem fer í laxafóður eru ansjósur, makríll og sardínur, allt fiskur sem nota má beint til manneldis.



Mun hollara er að borða beint ýmsar fisktegundir sem nú eru nýttar í fóður fyrir eldið. Stór hluti mikilvægra næringarefna tapast við að millilenda þeim í holdi eldislaxins.



Fóðurframleiðendur flytja mikið af þessum fiski inn frá þróunarlöndum, þar sem ósjálfbærar iðnaðarveiðar fiskimjölsframleiðenda ógna fæðuöryggi heimafólks og hefðbundnum strandveiðum, auk þess að hafa gríðarlegt kolefnisfótspor.



Sjókvíaeldisiðnaðurinn hefur í vaxandi mæli reitt sig á svokallaða „hreinsifiska,“ til dæmis hrognkelsi, til að halda lúsasmiti í skefjum. Þessir fiskar eru líka kjötætur og þurfa því fóður, líkt og laxinn. Þegar laxinum er slátrað úr kvíunum eru þessir fiskar líka drepnir.



Til að framleiða eina máltíð af eldislaxi þarf prótein og næringarefni sem myndu duga í þrjár til fjórar máltíðir fyrir fólk. Þetta á bæði við um fóður fyrir lax í sjókvíum og í landeldi.

Dýravelferð

Sjókvíaeldi er verksmiðjubúskapur þar sem

velferð eldisdýranna er látin víkja fyrir mögulegum hagnaði.



Aðbúnaður fisks í sjókvíaeldi er svo slæmur að um 40 prósent eldisdýranna drepst áður en þeim er slátrað úr kvíunum. Slík „afföll“ væru ekki liðin í neinum öðrum búskap.



Árið 2023 létu sjókvíaeldisfyrirtækin 4,5 milljónir eldislaxa drepist í sjókvíum við Ísland.



Samfara hækkun sjávarhita aukast líkur á því að hættuleg skilyrði myndist í kvíunum og fisksjúkdómar sem skaða tálkn laxins breiðist út, með þeim afleiðingum að hann kafnar.



Meðferð við laxalús, til dæmis notkun skordýraeiturs og hreinsifiska, er mengandi, grimmileg og í mörgum tilfellum árangurslaus.



Sjókvíar eru gróðrastíur fyrir fiski- og laxalús sem eru sníkjudýr sem étur roð fisksins. Illa haldinn fiskur er alsettur flakandi, opnum sárum. Til eru ljósmyndir úr íslensku sjókvíaeldi sem sýna lifandi eldislaxa með flakandi sár þar sem sést í hvíta höfuðkúpuna eftir að lúsin hefur étið sig í gegnum roðið og holdið á höfði þeirra.



Hundruð þúsunda hreinsifiska eru fjarlægðir úr sínu náttúrulega umhverfi og settir í kvíar með eldislaxi til þess að hafa hemil á lúsasmiti. Milljónir þessara hreinsifiska drepast eða er slátrað í lok framleiðsluferilsins.

Í sjókvíaeldi fer mengunin, fóður-, eitur- og lyfjaleifar, beint í sjóinn
gegnum netmöskvana og eldislaxar sleppa úr kvíunum. Afleiðingarnar eru
skaði fyrir umhverfið og óafturkræf erfðablöndun við villta laxastofna Íslands.
Þess vegna býð ég ekki upp á lax úr sjókvíaeldi á Forréttabarnum.

Róbert Ólafsson – matreiðslumeistari og eigandi Forrréttabarsins