„Sækja um afturvirka undanþágu fyrir brotum á starfsleyfi“
Þetta gæti líka verið fyrirsögnin á þessari nýjustu frétt af furðulegu verklagi Arnarlax við sjókvíaeldi sitt á Vestfjörðum. Samkvæmt starfsleyfi fyrirtækisins skal hvíla eldissvæði milli eldislota að lágmarki sex til átta mánuði. Arnarlax virðir þessi fyrirmæli hins vegar að vettugi en fyrirtækið setti fisk í kví á svæði í byrjun júní aðeins þremur mánuðum eftir að slátrað hafði verið upp úr kví á sama svæði.
Ekki er deilt um að brotið sé á skilmálum starfsleyfisins, hvorki af hálfu Umhverfisstofnunar né Arnarlax. Brotaviljinn er því fullkominn.
Þegar Umhverfisstofnun sendi fyrirtækinu tilkynningu um áform um áminningu þann 16. júlí brást Arnarlax við með því að leggja fram úrbótaáætlun sem fólst í því að sækja um undanþágu til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um hvíld svæða. Var sú umsókn send ráðuneytinu þann 30. júlí og er enn ósvarað. Ekki er að sjá að nein heimild sé til staðar lögum samkvæmt að veita slíka undanþágu.
Staðan er því sú að þremur mánuðum eftir að brotin hófust er enn fiskur í kvíum þar sem hann má ekki vera samkvæmt starfsleyfi.
Rík ástæða er fyrir kvöðum um hvíldartíma eldissvæða. Ef svæði eru ekki hvíld eykst botnmengun sem hefur verulega neikvæðar afleiðingar fyrir lífríkið.